Vetrarræktun í gróðurhúsum á Íslandi er algjörlega háð aukalýsingu. Lýsing getur því lengt uppskerutímann. Yfir háveturinn er rafmagnskostnaður mjög hár en hann er hægt að lækka með því að lýsa á nóttunni og um helgar. Markmið tilraunarinnar var að prófa hvort ásættanleg uppskera fengist með því að lýsa á ódýrari tímum. Paprikur (cv. Ferrari og cv. Viper) og tómatar (cv. Encore) voru ræktuð undir háþrýsti natríumlömpum í tveimur tilraunaklefum. Annar klefinn fékk hefðbundinn lýsingartíma eða frá kl. 04.00-22.00 allt ræktunartímabilið. Í hinum klefanum var ljósi stýrt eftir kostnaði. Yfir dýrara tímabilið (1.nóv.- 1.mars) var lýst um helgar (24 klst. báða dagana) og að nóttu virku dagana, þó þannig að vikulegt ljósmagn var jafnt í báðum klefum. Yfir ódýrara tímabilið var gefin jöfn lýsing frá kl. 04.00-22.00 líkt og í hinum klefanum. Þegar paprika fékk ljós á nóttunni og um helgar var söluhæf uppskera 5-10% minni en við venjulegan lýsingartíma. Hins vegar, nálgast uppskeran stöðugt uppskeru við venjulegan lýsingartíma eftir að hefðbundin lýsing hófst aftur. Uppsöfnuð söluhæf uppskera af tómötum var ámóta fyrir báða meðferðarliði framan af en svo dró í sundur og í lok uppskeru fékkst um 15% meiri uppskera við hefðbundinn lýsingartíma. Frá rekstrarlegu sjónarmiði er mælt með því að lýsa á hefðbundnum tímum sólarhringsins.

Hvenær sólarhringsins er hagkvæmast að lýsa vetrarræktað grænmeti?