Langtímatilraunir á nýræktartúni á Geitasandi stóðu frá 1959 til 2007. Brennisteinn fylgdi með í fosfóráburðinum þrífosfati, en hóflegur skortur á brennisteini kom seinna í ljós. Frá 1973 voru tilraunaliðir með 0, 1, 2, 3, 4 og 6 kg S ha-1 árlega. Brennisteinn var mældur í uppskerusýnum frá þremur árum, samsýnum innan ára. Tilraunaliðir voru 20, tveir slættir á ári. Þrjár áburðarmeðferðir voru endurteknar þar sem tveir til fjórir tilraunaliðir voru jafngildir, og ellefu mismunandi áburðarmeðferðir nýttust við mat á hversu vel brennisteinsþörf var fullnægt. N-áburður var 50 – 180 kg N ha-1. Auknum N-áburði fylgdi aukin brennisteinsþörf. Aukning uppskeru var marktæk þegar brennisteinn var aukinn úr 3S í 6S og N-áburður var 120 kg N ha-1. Hlutfallið N/S er gagnlegt til að meta hvort þörfinni fyrir brennistein er fullnægt. Í nýlegri aðferð er stuðst við markalínur fyrir gras þar sem S% í uppskerusýnum er beinnar línu fall af N%. Brennisteinn var örugglega fullnægjandi í fyrri slætti við 4S og 50N. Í öðrum áburðarliðum, nema 6S og 120N, og 4S og N ≤ 100 kg N ha-1, var brennisteinn örugglega ófullnægjandi. Frávik frá markalínum voru ekki mikið breytileg milli ára og slátta og röðun áburðarmeðferða var stöðug. Meðalupptaka af brennisteini í áburði umfram 1 kg S ha-1 var 48%.

Brennisteinn í langtímatilraunum á Geitasandi