Áhrif N-áburðar á áður ógróna sandjörð í langtímatilraun á Geitasandi voru rannsökuð eftir 50 ára tilraunatímabil. Tilraunaliðir voru árlega 50, 100, 150  og 200 kg N ha-1 auk 53 kg P og 100 kg K  ha-1 á alla liði. Jarðvegssýni voru tekin úr 0-5, 5-10 og 10-20 cm dýptum. Rúmþyngd, pH og heildarmagn C og N voru mæld, og auðleyst Ca, Mg, K, Na og P voru greind í ammóníumlaktatskoli (AL-skol). Á tilraunatímabilinu myndaðist um 10 cm þykk rótar-og trefjamotta ofan á sandinum. Að meðaltali söfnuðust 424 til 597 kg C ha-1 og 24 til 46 kg N ha-1 á ári. Fyrir hvert kíló af ábornu N safnaðist 1,05 kg af C og 0,15 kg af N ha-1 að meðaltali á ári í jarðveginn. Sýrustig lækkaði með vaxandi N-áburði. Heildarmagn auðleystra næringarefna í ammóníumlaktatskoli minnkaði í efstu 10 cm jarðvegsins með auknum N-áburði frá 50 í 200 kg N ha-1; Ca lækkaði úr 625 í 198 kg ha-1, Mg úr 139 í 55 kg ha-1, K úr 240 í 105 kg ha-1, Na úr 54 í 28 kg ha-1 og P úr 365 í 308 kg ha-1. Meirihluti áborinna næringarefna hafði verið fjarlægður með uppskeru eða var í efstu 10 cm jarðvegsins.

Langtímaáhrif nituráburðar á kolefni, nitur og auðleyst næringarefni í snauðri sandjörð