Leiðbeiningar til höfunda

 Tekið er við greinum til birtingar í Skrínu allt árið og eru þær birtar jafnóðum og þær eru tilbúnar.

GERÐ OG LENGD GREINA

  • Ritrýndar fræðilegar greinar (3000-6000 orð) eru lesnar af einum eða fleiri ritstjórnarmeðlimum og ritrýndar af a.m.k. tveimur sérfræðingum á viðkomandi sviði. Nafnleyndrar er gætt við ritrýnina. Ritrýndar fræðilegar greinar skulu standast strangar gæðakröfur um efnisval, framsetningu, heimildanotkun, fræðilega úrvinnslu og frágang.
  • Ritstýrðar greinar almenns eðlis  (2000-4000 orð) eru, fyrir utan almennan handritalestur, lesnar af a.m.k. tveimur ritstjórnarmeðlimum. Ekki eru gerðar eins strangar kröfur um greinar almenns eðlis og um ritrýndar greinar en þó er mikilvægt að vanda til þeirra eins og kostur er.
  • Nýgræðingar. Stuttar greinar (1-2 bls.) sem kynna nýjar hugmyndir, þróunarverkefni, áhugaverðar alþjóðlegar vísindagreinar og annað efni sem ástæða er talin að kynna fyrir lesendum Skrínu. 
  • Ritfregnir / ritdómar ( 1-2 bls.), sem geta ýmist verið að frumkvæði ritstjórnar eða höfundar.

Miðað er við að innsendar greinar í Skrínu hafi ekki birst annars staðar.

SKIL Á HANDRITI

Handrit skulu send sem Word eða .rtf viðhengi við tölvupóst á netfangið skrina@lbhi.is. Í póstinum skal koma fram gerð greinar (ritrýnd, ritstýrð, o.s.frv).

FRÁGANGUR Á HANDRITI 
Greinar í Skrínu skulu að öllu jöfnu vera skrifaðar á íslensku. Höfundar eru beðnir um að vanda málfar og fara eftir opinberum reglum um stafsetningu og greinamerkjasetningu. Tilvísun í þær reglur ásamt gagnlegum upplýsingum um ritun má til dæmis finna á vefsíðu Eiríks Rögnvaldssonar (https://notendur.hi.is/eirikur/ritun.htm ).

Röð efnis í handriti skal vera eftirfarandi: Titill, höfundar og upplýsingar um þá, ágrip á íslensku og ensku, efnisorð, megintexti, þakkarorð, heimildaskrá, töflur og myndir.

Titill greinar skal vera lýsandi en þó eins stuttur og kostur er.

Höfundar. Auk nafna höfunda skulu koma fram upplýsingar um heiti stofnana sem þeir vinna við og netfang fyrsta höfundar.

Ágrip. Ritrýndum greinum skal fylgja samhljóða ágrip á íslensku og ensku en einungis er þörf á íslensku ágripi fyrir ritstýrðar greinar almenns eðlis. Ágrip séu að hámarki 250 orð. Ekki er þörf á ágripi fyrir nýgræðinga eða ritfregnir/ritdóma.

Efnisorð. Gefið upp fimm efnisorð fyrir ritrýndar og ritstýrðar greinar og raðið þeim í stafrófsröð.

Kaflaskipting. Greinar sem fjalla um niðurstöður rannsókna skulu að öllu jöfnu fylgja hefðbundinni kaflaskiptingu: INNGANGUR – EFNI OG AÐFERÐIR – NIÐURSTÖÐUR – UMRÆÐUR en heimilt er að nota aðra kaflaskipan í greinum almenns eðlis. Skipta má meginköflum í undirkafla ef þörf krefur. Kaflaheiti yfirkafla skal rita með upphafsstöfum  en feitletra heiti undirkafla. Á eftir megintexta má koma stuttur kafli með þakkarorðum (ÞAKKIR).

Heimildanotkun og heimildaskrá
Heimildanotkun þarf að vera vönduð og vísað í heimildir þar sem þar á við. Raðið heimildaskrá í stafrófsröð eftir nöfnum höfunda. Nánari leiðbeiningar um tilvísanir og frágang heimildaskrár er að finna hér. Gætið þess að samræmi sé á milli tilvitnana og heimildaskrár.

Töflur og myndir. Vísið í allar myndir og töflur með hlaupandi númerum. Töflur, myndir og myndatextar skulu vera í sömu skrá og annar texti, á eftir heimildalista. Myndatextar skulu vera undir viðkomandi mynd en skýringartextar fyrir töflur skulu vera ofan við töflu.  Höfundum er bent á að þar sem greinarnar birtast einungis á vefnum gefur það ýmsa möguleika á notkun myndefnis og jafnvel að vísa í hljóðskrár eða hreyfimyndir.