Alþjóðlega vísindaritið Icelandic Agricultural Sciences (IAS) birtir greinar um hagnýt og fræðileg efni í
náttúruvísindum. Tímaritið er í prentaðri útgáfu og í opnum rafrænum aðgangi. Greinar í IAS koma
fram í ýmsum alþjóðlegum vefsetrum. Leit var framkvæmd í vefsetrum Web of Science og Scopus þann
21. nóvember 2014 til að kanna hversu sýnilegt IAS er. Alls voru 42 IAS greinar (2009-2013) í Thomson
gagnagrunni og 36 (2010-2013) í Scopus gagnagrunni, sem eru allar greinar sem komu út í IAS á þessu
árabili. Vitnað hefur verið í þessar 42 og 36 greinar 90 og 70 sinnum, að meðaltali 2,1 og 1,9 tilvitnanir
í hverja grein. Matsstuðull (e. Impact Factor) er nú 0,071. SJR (SCImago Journal Rank) er 0,211 og SNIP
(Source Normalized Impact per Paper) er 0,213. Hirsch-index mælist fimm. Sú grein sem oftast var
vitnað í fjallar um öskufall og áfok. Web of Science vefsetrið flokkar greinarnar sem vitna í IAS í 33 svið
og Scopus vefsetrið í 18 svið. Höfundar að greinunum sem vitna í IAS eru frá 128 stofnunum og
háskólum víðs vegar í heiminum, í fimm heimsálfum og 33 löndum. Vefsetursgreiningin á IAS
endurspeglar árangursríkt gæðastarf tímaritsins, fjölbreytt fræðasvið hagnýtra náttúrufræða og
gefandi alþjóðlegt samstarf. Árangur útgáfustarfsins er góður og IAS er vel sýnilegt meðal vísindarita
sem það er sett í flokk með.

Hversu sýnilegt er „Icelandic Agricultural Sciences“ í alþjóðlegum vefsetrum? Skrína 1: 3. Ritstýrð grein