Plöntusjúkdómar hafa mikil neikvæð áhrif á framleiðni í landbúnaði. Samfara auknum flutningum og
breyttu veðurfari mun útbreiðsla plöntusjúkdóma breytast, þeir berast hraðar milli landa og í meira
mæli en áður. Sveppir eru stór hluti sjúkdómsvalda og oft leggjast margar tegundir á hverja tegund
nytjaplöntu. Vel þekktur sjúkdómsvaldur er Puccinia graminis sem veldur hveitiryði. Lítið bar á P.
graminis eftir Grænu byltinguna þegar til urðu yrki með öfluga mótstöðu en sveppurinn ruddist á ný
fram á sjónarsviðið í lok síðustu aldar og fer nú sem eldur um sinu. Þar sem hann nær sér á strik geta
afföll á uppskeru orðið alger. Kynbætur nytjaplantna eru því endalaus varnarbarátta við breytingar á
sýkingarhæfni sjúkdómsvalda, sem vegna aðlögunarhæfni breytast hratt. Hérlendis hefur
landbúnaður notið fjarlægðar frá meginstofnum helstu skaðvalda auk þess sem ræktun nytjaplantna
hefur verið takmörkuð. Alaskaösp var til dæmis laus við skaðvalda hérlendis frá upphafi ræktunar árið
1944 allt fram til ársins 1999 þegar asparryð af völdum Melampsora larici-populina greindist fyrst. Nú
benda nýjar rannsóknir á asparryði til þess að endurtekið landnám hafi átt sér stað sem eykur
mikilvægi vöktunar á sjúkdómsvöldum og kynbóta nytjaplantna gegn þeim. Rannsóknir á
byggsjúkdómum hafa sýnt að afföll í byggrækt geta verið umtalsverð af völdum sveppasjúkdóma, en
jafnframt hafa nýlegar rannsóknir sýnt að tegunda- og erfðafjölbreytileiki sjúkdómsvalda er meiri en
áður var talið. Fjarlægð Íslands frá meginlöndum þýðir því ekki einangrun hvað varðar
plöntusjúkdóma og nýlegar rannsóknir undirstrika mikilvægi þess að fylgst sé náið með framvindu
plöntusjúkdóma hérlendis og hugað að sjúkdómsþoli nytjaplantna í íslensku kynbótastarfi.

Sveppasjúkdómar á Íslandi. Skrína 1: 2.  Ritstýrð grein