Þróun og efnahagslegt mikilvægi klasa hefur verið viðfangsefni fræðimanna um árabil. Kenningum
um klasa og klasaþróun hefur verið beitt við greiningu á ýmsum atvinnugreinum og landsvæðum,
meðal annars í dreifbýli, en sjaldan til greiningar á hestamennsku sem atvinnugrein.
Í þessari grein er fjallað um rannsókn á þróun klasa í hestamennsku á Norðurlandi vestra. Rannsóknin
byggir á greiningu fyrirliggjandi gagna um hestamennsku og tengdar atvinnugreinar á svæðinu. Leitað
er svara við því hvort þróun í hestatengdri starfsemi á Norðurlandi vestra samræmist kenningum um
klasa. Sett er fram klasakort fyrir hestamennsku á Norðurlandi vestra og rýnt í þróun hestamennsku á
svæðinu, dreifingu hestatengdra fyrirtækja, stoðkerfis og tengdrar þjónustu ásamt því að einkenni
greinarinnar eru rannsökuð út frá fjölda, stærð og gerð fyrirtækja sem og vísbendingum um
samkeppni, samstarf og flæði þekkingar.
Þróun hrossaræktar og hestamennsku á sér langa sögu á Norðurlandi vestra og er ímynd svæðisins
nátengd hestum. Fyrstu niðurstöður benda til að skýr merki séu um þróun klasa í hestamennsku á
svæðinu. Fjölbreytni hestatengdra fyrirtækja á svæðinu er umtalsverð og fjöldi hrossa miðað við
íbúafjölda er meiri en annars staðar á landinu. Nám í hestamennsku er í boði upp á háskólastig.
Tengsl hestamennsku og ferðaþjónustu virðast vera nokkuð sterk og má sjá merki um tengda klasa í
ferðaþjónustu og landbúnaði.

Hestar og þróun klasa: hestatengdur klasi á Norðurlandi vestra