Tilraun með N-áburð á nýræktartúni á Geitasandi hófst 1958 og stóð til 2007. Umfjöllun takmarkast við 1959 – 2006. Áburðarliðir voru 50, 100, 150 og 200 kg N ha-1 á ári. Grunnáburður var 53 kg P og 100 K ha-1 á alla liði. Að vori voru borin á 50N eða 100N og N-áburður umfram 100N borinn á eftir fyrri slátt. Áhrif áburðar á hlutdeild háplöntutegunda í þekju voru lítil eftir 17 ár. Í lok tilraunar hafði túnvingull aukið hlutdeild sína á kostnað vallarsveifgrass og língresis við 50N og 100N. Úthagagróðurs var farið að gæta við 50N. Uppskeran af 50N var minni en vaxtaraukinn frá 50N til 100N. Nitur var mælt í samsýnum áburðarliða í 14 ár. Í 11 ár fengust ógallaðar mælingar úr tveimur sláttum og var meðalupptaka niturs 58% af 50N og 75% af aukningu úr 50N í 100N, en 62% af +50N eftir slátt. Reiknuð upptaka allan tilraunatímann var 52% af 50N og 79% af aukningu 50N til 100N. Gildi á N% sem vantaði voru reiknuð eftir aðhvarfi að sláttudegi. Samkvæmt fyrri rannsóknum má vænta upptöku á tveimur þriðju hlutum N-áburðar á gras við góðar aðstæður. Upptaka eftir 50N var mikið minni í 4 ár af 14 og jafngildir það því að söfnun niturs úr áburði í jarðveg hafi verið umfram losun, en aukning upptöku frá 50N til 100N var eftir væntingum þessi ár. Í önnur 4 ár var N-upptaka frá 50N til 100N um 100% og sýnir það aukið aðgengi að nitri við 100N umfram áburð. Aðeins eitt ár benti upptaka af 50N til aðgengis að nitri umfram áburð. Gróf samsvörun fannst milli neikvæðra og jákvæðra frávika í N-upptöku og óhagstæðrar og hagstæðrar vorkomu.
Áhrif nituráburðar á uppskeru af grasi og nýting hans í langtímatilraun á snauðri sandjörð