gróðurhús

Hvenær sólarhringsins er hagkvæmast að lýsa vetrarræktað grænmeti?

Myndagallery: 
Ár: 
2017
Höfundur: 
Christina Stadler
Útgáfa: 
Skrína, 3.árgangur, 1.grein

Öll greinin (pdf)

Vetrarræktun í gróðurhúsum á Íslandi er algjörlega háð aukalýsingu. Lýsing getur því lengt uppskerutímann. Yfir háveturinn er rafmagnskostnaður mjög hár en hann er hægt að lækka með því að lýsa á nóttunni og um helgar. Markmið tilraunarinnar var að prófa hvort ásættanleg uppskera fengist með því að lýsa á ódýrari tímum.

Paprikur (cv. Ferrari og cv. Viper) og tómatar (cv. Encore) voru ræktuð undir háþrýsti natríumlömpum í tveimur tilraunaklefum. Annar klefinn fékk hefðbundinn lýsingartíma eða frá kl. 04.00-22.00 allt ræktunartímabilið. Í hinum klefanum var ljósi stýrt eftir kostnaði. Yfir dýrara tímabilið (1.nóv.- 1.mars) var lýst um helgar (24 klst. báða dagana) og að nóttu virku dagana, þó þannig að vikulegt ljósmagn var jafnt í báðum klefum. Yfir ódýrara tímabilið var gefin jöfn lýsing frá kl. 04.00-22.00 líkt og í hinum klefanum.

Þegar paprika fékk ljós á nóttunni og um helgar var söluhæf uppskera 5-10% minni en við venjulegan lýsingartíma. Hins vegar, nálgast uppskeran stöðugt uppskeru við venjulegan lýsingartíma eftir að hefðbundin lýsing hófst aftur. Uppsöfnuð söluhæf uppskera af tómötum var ámóta fyrir báða meðferðarliði framan af en svo dró í sundur og í lok uppskeru fékkst um 15% meiri uppskera við hefðbundinn lýsingartíma. Frá rekstrarlegu sjónarmiði er mælt með því að lýsa á hefðbundnum tímum sólarhringsins.

Christina Stadler. 2017. Hvenær sólarhringsins er hagkvæmast að lýsa vetrarræktað grænmeti?  Skrína 3:1.

Áhrif ágræðslu og ljósstyrks á uppskeru gróðurhúsatómata að vetrarlagi

Myndagallery: 
Ár: 
2014
Höfundur: 
Christina Stadler
Útgáfa: 
Skrína, 1. árgangur, 4. grein

Öll greinin (pdf)

Vetrarræktun í gróðurhúsum á Íslandi er algjörlega háð aukalýsingu. Viðbótarlýsing getur lengt uppskerutímann og þannig dregið úr þörf fyrir innflutning grænmetis að vetri til. Flestir ræktendur rækta tómatplöntur á eigin rót. Markmið rannsóknarinnar voru að kanna áhrif ágræðslu og ljósstyrks á uppskeru og hagkvæmni þessarra þátta með tilliti til framlegðar.

Tómatar (Lycopersicon esculentum Mill. 'Encore') voru ræktaðir í vikri með 3,13 toppa/m2 undir topplýsingu frá háþrýsti-natríumlömpum (HPS, 240 W/m2) að hámarki í 18 klst. á sólarhring og í klefa með hærri ljósstyrk (300 W/m2) með 4,38 toppa/m2, hærra hitastig og hærri styrk CO2.

Framan af var enginn uppskerumunur á milli ágræddra tómata og tómata á eigin rót. En eftir eins mánaðar uppskeru jókst uppskera söluhæfra tómata af ágræddum plöntum meira en af plöntum á eigin rót þannig að í lok tilraunarinnar var uppsöfnuð söluhæf uppskera af ágræddum tómötum marktækt hærri en tómata á eigin rót. Munurinn fólst í fjölda aldina en meðalþyngd þeirra var hin sama. Frekari uppskeruaukningu væri hægt að ná með hærri ljósstyrk ásamt því að auka þéttleika plantna, hitastig og styrk CO2. Frá efnahagslegu sjónarhorni virðist vera ráðlegt að nota ágræddar plöntur en hærri ljósstyrkur er ekki hagkvæmur.

 

Christina Stadler 2014. Áhrif ágræðslu og ljósstyrks á uppskeru gróðurhúsatómata að vetrarlagi. Skrína 1: 4. http://www.skrina.is/Skrina_2014_grein_4